154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023--2026.

511. mál
[15:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni svarið og finnst einmitt mjög gott að heyra að hann tekur undir þetta með mikilvægi gæðanna. Ég vil ítreka enn og aftur að evrópski tungumálaramminn er bæði grundvöllur að sjálfsmati og eins að sambærilegu mati að loknu námskeiðum. Ég vil líka segja það að fræðsluaðilar sem fá styrki úr fræðslusjóði eru allir með gæðakerfi og hafa allir verið teknir út. En auðvitað má segja að kennsla í íslensku sem öðru máli hafi verið ákveðin tilraunastarfsemi vegna þess að við kunnum ekkert að kenna íslensku sem annað mál hérna fyrir rúmum 20 árum þegar við byrjuðum á því, svona skipulega úti um allt land. Áður hafði hún bara verið kennd í einhver ár í Háskóla Íslands og þá í rauninni á allt öðru stigi. Þannig að það hefur byggst upp mikil þekking og það hafa verið gerðar tilraunir og sumar hafa eflaust ekki gengið vel meðan aðrar hafa gengið vel. En þarna held ég að sé einmitt tækifæri til að safna saman reynslunni skipulega af vísindafólki og miðla því sem hefur gengið vel svo aftur út.

Ég vil líka leggja áherslu á það að við þurfum líka að bera virðingu fyrir því að einstaklingar eru ólíkir. Sumir hér inni voru eflaust farnir að tala bara um eins árs aldurinn meðan aðrir byrjuðu að tala fjögurra ára og það er alveg sama með þá sem læra íslensku sem annað mál., það tekur fólk mjög mislangan tíma að læra tungumálið. Sumir þurfa jafnvel fleiri en eitt námskeið á fyrsta stigi bara til þess að komast í gang meðan aðrir geta farið mjög hratt í gegnum kannski fjögur, fimm námskeið, hvert í framhaldi af öðru, og eru að bæta jafnt og þétt við sig. Þeir sem eru seinna af stað geta svo farið hraðar jafnvel síðar í ferlinu. Við verðum að virða þetta jafnframt.